Tannsýkingar

Tannsýkingar

 dscf0008.JPGdscf0006.JPGdscf0011.JPG

Tannsjúkdómar eru mjög algengir hjá bæði hundum og köttum. Athuganir hafa sýnt að eftir 3 ára aldur þjást allt að 7 af hverjum 10 gæludýrum af einhverskonar tannsjúkdómi. Ef ekkert er að gert getur þetta þróast út í óafturkræfar skemmdir á tönnum, tannholdi og kjálkabeini. Með réttum aðferðum má auðveldlega koma í veg fyrir tannsjúkdóma.

Einkenni tannsjúkdóma geta verið margvísleg, allt frá andremmu og sjánlegum tannsteini upp í erfiðleika við að éta. Dýrið getur slefað óeðlilega mikið og oft getur munnvatnið verið blóðlitað. Við mikil óþægindi getur dýrið farið að hrista haustinn óeðlilega mikið og klóra sér á munnsvæðinu.

 

Tannholdsbólga/sýking er bólga og þroti í tannholdi af völdum baktería sem mynda útfellingar á yfirborði tannanna, sem geta þróast yfir í tannstein. Tannholdsbólga er skilgreind sem sýking sem ekki veldur óafturkræfum skemmdum í stoðvefnum í kringum tennurnar. Tannholdsbólga getur þróast yfir í mun alvarlegri sýkingu í stoðvefnum í kringum tennurnar, hinu svonefnda tannslíðri, og valdið tannslíðursýkingum.  Tannslíðursýking getur verið bundin við eina eða fleiri tennur og valdið óafturkræfum skemmdum á stoðvefnum kringum þær.

Hvað veldur tannholdssýkingum? Ákveðnar bakteríur eða eiturefni frá bakteríum í útfellingum og tannsteini geta haft bein áhrif á tannholdið. Einnig geta breytingar á tegundasamsetningu í munnholi hundsins veikt náttúrulegar varnir hans gegn sýkingum, og valdið alvarlegum sjúkdómum í tannslíðrinu. Veikt ónæmiskerfi getur líka gert hundinn viðkvæmari fyrir sýkingum í tannholdi og tannslíðri. 

Bakteríuútfellingar á tönnum (plaque) myndast þegar ákveðnar bakteríur festa sig á munnvatnsprótín sem loða við tennurnar og með tímanum geta þær þróast yfir í tannstein. Tannsteinninn sjálfur virkar sem festa fyrir bakteríurnar sem valda bólgum og sýkingum, en er í sjálfu sér ekki sjúkdómsvaldur.

 

Ef tannholdsbólga er ekki meðhöndluð getur ástandið þróast yfir í hina alvarlegu tannslíðurbólgur. Einnig getur komið ofvöxtur í tannholdið sem hindrað getur nauðsynlega hreinsun tannanna. Algengara er þó að tannholdið eyðist og hverfi, sem berar tannbeinið sem er viðkvæmara fyrir utanað komandi áhrifum og mýkra en glerungurinn. Tannhold vex ekki aftur. Og er því er mikilvægt að stöðva ferlið áður en þetta gerist.

Í kjölfar tannslíðurbólgu geta nokkrir hlutir gerst. Vefurinn sem heldur tönninni fastri í kjálkabeininu getur eyðst og tönnin fer að losna. Við þetta opnast inn að beininu og bakteríur geta komist að rótinni og í verstu tilfellum valdið tannrótarbólgu. Einnig getur kjálkabeinið farið að eyðast og tönnin losnar. Kjálkabeinið í kringum tönnina vex ekki aftur. Einnig geta graftarkýli myndast undir tannholdinu og niður með tönninni. Oft myndast líka sár í slímhimnu varanna og kinna við snertingu við tannsteinn og sýkt tannhold. Sársauki fylgir flestum þessum kvillum, sem getur valið því að dýrið étur minna eða hættir að éta, og getur orðið mjög veikt í kjölfarið.

 

Hvað er til ráða? Tannhreinsun er framkvæmd með tæki sem gefur frá sér hátíðnihljóðbylgur, og með öðrum tannáhöldum, sem hreinsa bæði tannstein og bakteríuútfellingar á yfirborði tannana og undir tannholdröndinni. Eftir það eru tennurnar burstaðar með sérstöku tannkremi, tannpússun, sem er mikilvæg til að fjarlægja bakteríu leifar sem ekki sjást með berum augum. Og síðast en ekki síst þarf að fjarlægja ónýtar tennur eða tennur sem valda uppsöfnun á tannsteini t.d. hvolpatennur sem ekki hafa losnað eðlilega. Við ofholdgun á tannholdi þarf að skera í burtu ofvöxtin svo hægt sé að halda tönnunum vel hreinum.

 Einatt þarf að deyfa eða svæfa dýrið svo að unnt sé að sinna tannmeðferð, og fer dýpt deyfingarinnar eftir því í hve alvarlegu ástandi tennurnar eru, hvort fjarlægja þurfi tennur, og eftir aldri dýrsins og líkamlegu ástandi. Oft þarf að taka röntgenmyndir af kjálka og tönnunum til að athuga hvort tannrótarsýkingar eru til staðar, og hvort rætur tannanna eru eðlilegar, og til að athuga heilbrigði kjálkanna. Tönn getur verið eðlileg að sjá en með ónýtar rætur, og þarf að fjarlægja slíkar tennur þar sem þær geta valdið dýrinu miklum óþægindum og sársauka.

Lausar tennur þarf líka að fjarlægja, þar sem kjálkabeinið hefur eyðst og engin meðferð er við því. Lausar tennur valda dýrinu miklum óþægindum og sársauka.

Algengt er að sumir hundar þurfi að fara í tannhreinsun á 6-12 mánaða fresti, á meðan aðrir þurfa að fara einu sinni eða tvisvar um ævina.

Ekki er alltaf um tannholdssýkingu að ræða, en þegar svo er og þegar um tannrótarsýkingu og fjarlægingu á ónýtum tönnum er að ræða eru gefin sýklalyf, þá annað hvort fyrirbyggjandi t.d. við tanntöku, eða til meðhöndlunar á slæmum sýkingum.

 

Hvað er hægt að gera? Aðalábyrgð á tannheilsu gæludýranna okkar liggur hjá eigandanum. Gott er að temja sér að skoða reglulega upp í hundinn, og er mikilvægt að venja hann á þetta heima og minnkar það einnig streitu við skoðun hjá dýralækninum. Andremma getur gefið til kynna hvað er að gerast. Þannig getur eigandinn sjálfur uppgötvað byrjun á sjúkdómum í tannholdi eða tannslíðri, lausar eða brotnar tennur osfv. og þá er best að panta tíma hjá dýralækni til að ákvaðra meðhöndlun.

Ýmislegt er hægt að gera til að koma í veg fyrir sýkingar. Unnt er að bursta tennur í þeim sem ekki eru varir um sig. Byrjað er með mjúkum barnatannbursta og hægt og rólega farið yfir í stinnari tannbursta. Til eru margvíslegir hundatannburstar. Í fyrstu umferð burstar maður eina til tvær tennur. Eftir því sem hundurinn venst á þetta þá eru fleiri tennur burstaðar þar til allur tanngarðurinn er burstaður, og ekki gleyma að hrósa greyinu og umbuna fyrir erfiðið. Þegar hundurinn er orðin vanur tannburstuninni er hægt að byrja nota sérstakt hundatannkrem sem freyðir ekki, en aðalatriðið er sjálf burstunin. Best er að bursta tennurnar í hundinum á hverjum degi, jafnvel saman með sérstöku fóðri eða beinum.

Ýmsar vörur sem ætlaðar eru til að hreinsa tennurnar t.d. tannhreinsiþurkur, tannhreinsigel o.fl.

Látið hundinn naga bein og annað sem er seigt eða gúmmíkennt burstar tennurnar í hundinum á náttúrulega hátt. Ýmis nagbein finnast á markaðnum bæði sem hundurinn étur eða nagar aðeins. Best er að finna þá vöru sem hundinum líkar og gefur sér tíma til að naga. Ef beinið hverfur á örskotsstundu hefur það ekki mikið „tannburstunargildi”.

Til eru ýmsar fóðurtegundir sem hreinsa tennur. Allt frá venjulegu fóðri upp í sjúkrafóður. Best er fyrir hundinn að éta gott þurrfóður sem hann þarf að bryðja, þá hreinsar hann tennurnar að hluta í leiðinni. Ef hundar gleypa matinn sinn þá er fóðrið of smágert, og þá þarf að nota stærri fóðurkúlur, eða þeir nenna ekki að tyggja það og þarf þá að grípa til þeirra aðferða sem áður var lýst. 

 Höfundur: ©Dagmar Ýr Ólafsdóttir, dýralæknir