Umhverfi og umhirða kanína
BÚR
Best er að hafa búrið með heilu gólfi til að koma í veg fyrir að kanínan fái sár við hækilinn á afturfótum. Stærð búrsins þarf að vera minnst 50×100 cm fyrir litlar kanínur (minni en 3 kg) og 70×100 cm fyrir stærri kanínur. Villtar kanínur eru dýr sem eru mikið á ferðinni yfir daginn en tamdar kanínur þurfa oft til að sitja alltof þröngt. Uppbygging vöðvamassa og beinagrindar verður oft léleg en það getur til dæmis leitt til beinbrota.
Nota má handklæði (ef kanínan étur það ekki), eða mottu á gólf búrsins. Flísefni eru mjög góð þar sem hægt er að þvo þau. Ef kanínan tyggur flísefni myndast ekki langir efnisþræðir sem festast í maganum. Náttúrulegt, ódýrt og gott undirlag er dagblaðapappír og þykkt lag af heyi eða hálmi yfir allan botninn. Það gefur gott umhverfi, undirlagið verður mjúkt sem minnkar álagið á viðkvæma fætur kanínunnar. Notið ekki fiskabúr eða búr með heilum veggjum því skortur á loftstreymi getur leitt til öndunarfærasýkinga. Undirlag eins og spænir er ekki eins gott því að það er oft mikið ryk í spæninum.
Munið að skipta um undirlag eða hreinsa búrið daglega. Það er mjög algengt upp komi sjúkdómatengd vandamál vegna þess að hreinlæti í búrinu er ábótavant. Til dæmis má nefna augnrennsli og nefrennsli vegna pirrandi efna sem gufa upp frá þvagblautu undirlagi og einnig sár á neðanverðum hækli vegna stöðugrar snertingar við rakt undirlag.
Ef það á að láta kanínuna ganga lausa heima, þarf að huga að því hvort séu einhver svæði eða staðir þar sem kanínan getur meitt sig eða sloppið í burtu og þá þarf að afmarka þá staði. Skoðið líka hvort hætta sé á að kanínan komist í rafmagnsleiðslur eða snúrur sem hún getur tuggið, hvort það séu mottur sem þær grafa í og tyggja eða eiturefni. Leggist á fjóra fætur og komist að raun um að heimilið ykkar sé öruggt fyrir kanínur. Athugið líka þófa kanínunnar reglulega. Slit af hörðum gólfum eða mottum getur leitt til meiðsla á þunnri húð fótanna.
KANÍNUKLÓSETT
Það er frekar einfalt að æfa kanínur í að gera stykkin sín á ákveðnum stað. Í upphafi verður að hafa kanínuna á litlu afmörkuðu svæði, annaðhvort í búri eða afmörkuðum hluta herbergis með klósettið/kassann í einu horni (reynið að velja horn sem kanínan hefur sjálf valið). Passið að kanturinn á kassanum sé nógu lágur til að kanínan komist auðveldlega upp í og út úr. Til að byrja með getur hjálpað að setja smá kanínuhægðir í kassann. Hægt er að verðlauna kanínuna með góðbitum (sjá grein um fóðrun kanína) þegar að hún hefur notað kassann. Refsið ekki kanínunni þegar hún er í kassanum og hafið ekki áhyggjur Þótt hún sitji lengi í kassanum. Það er leyfilegt svo framarlega sem hún gerir sig ekki mjög óhreina.
Pappírskögglar eða annað lífrænt efni er best í kassann. Slík efni eru ekki eitruð, það kemur lítið ryk úr þeim og þau brotna niður ef kanína myndi borða þau. Það er auðveldara að hreinsa en eftir spæni eða sand, gefur minni lykt og er hægt að setja í safnhaug. Athugaðu hvað dýrabúðin þín hefur upp á að bjóða.
HITASTIG
Kanínur ætti að hafa á kaldasta og rakaminnsta stað hússins. Rannsóknir hafa sýnt aukna tíðni á öndunarfærasjúkdómum hjá kanínum sem búa í heitu, röku umhverfi með slæma loftræstingu borið saman við kanínur sem eru í köldu, þurru umhverfi með góða loftræstingu. Rakir kjallarar eru einn versti staður sem hægt er að hugsa sér fyrir kanínur. Ef kanínur þurfa að vera í kjöllurum þá skyldi fjárfesta í tæki til að þurrka loftið og viftu til að halda raka í burtu og bæta loftræstinguna.
Besta hitastigið fyrir kanínur er 16-21 gráður. Þegar hitinn nær 24 gráðum er aukin tíðni á slefi og nefrennsli. Ef hitastigið nær 26 gráðum og yfir, og ef loftrakinn er mikill, er mjög mikil hætta á lífshættulegu hitaslagi. Á mjög heitum dögum getur verið gott að setja mjólkurfernu með ís í búrin, því það virkar sem færanleg loftkæling.
Passið upp á það sé alltaf aðgangur að köldu vatni, það hjálpar til við að halda líkamshitanum niðri. Ef að kanínan sýnir einkenni hitaslags, reynið þá að halda ísmola við eyrað eða væta alla kanínuna varlega með köldu (ekki ísköldu) vatni. Ef hitaslagið er alvarlegt verður að fara með kanínuna til dýralæknis.
Ef að kanínur eru utanhúss í annaðhvort heitu eða köldu veðri, verður að sjá til þess að búrin séu í skjóli fyrir vind og sól. Að vetri til er gott að nota hálm til einangrunar. Passið upp á að skipta um vatn daglega, því að kanínan getur þornar upp ef vatnið er freðið í fleiri daga.
09/2007 © Anna Jóhannesdóttir