Almennt um fóðrun kanína

20040806-rabbit.jpgMeltingarfæri kanína eru sérhönnuð til að brjóta niður sterkju og meltingarfærastarfsemin er flókin. Það sem er allra mikilvægast að muna við fóðrun kanína er að þær eru grasætur og geta auðveldlega lifað allt sitt líf eingöngu á grasi og gæðaheyi. Það er engin hætta á að heilbrigð kanína líði næringarskort á þessu fóðri, þvert á móti þá líður þeim sem allra best á þessu einfalda fæði. Fæða kanína ætti að samanstanda af heyi, vatni, gæðakanínukorni og fersku grænmeti. Svo má gefa “verðlaun” en einungis í litlu magni. Þótt að kanínur vilji éta mikið af góðbitum og minna af heyi/grasi, á ekki að láta það hafa áhrif á matseðilinn. Það er nefnilega eigandinn sem ræður fóðrinu.  Ef að kanínan vill ekki éta hey þrátt fyrir að ekkert annað sé á boðstólum ætti að láta dýralækni skoða hana.

HEY
Hey er kanínum lífsnauðsynlegt og á að vera aðgengilegt í ótakmörkuðu magni á hverjum degi, minnst 80-90% af fæðunni á að vera hey. Kanínur éta lítið magn í einu en oft á dag. Ef að kanínur hafa einungis aðgang að heyi á vissum tímum getur það leitt til meltingarfæratruflana. Laust hey með löngum trefjum er betra en hey sem er pressað í bagga eða slíkt. Trefjarnar í heyinu eru mjög mikilvægar til að örva eðlilega meltingu og til að tennurnar slitni rétt. Hey inniheldur einnig prótein og önnur næringarefni sem eru mikilvæg fyrir góða heilsu. Munið að skoða heyið vel áður en þið kaupið það, en það skal geyma á köldum þurrum stað með góðri loftræstingu (ekki í plastpoka). Hendið blautu og röku heyi, og gömlu heyi. Besta leiðin til að fóðra með heyi er að gefa það í heygrind á ytra byrði búrsins. Þá geta kanínurnar dregið hey inn í búrið eftir þörfum. Á þennan hátt helst heyið líka hreint og það fer ekki eins mikið til spillis. Á vissum árstímum getur verið erfitt nálgast hey, þá má gefa aðeins minna hey í stuttan tíma, en það sem er mikilvægast er að hafa alltaf hey aðgengilegt. Munið að skammta kjarnfóður og að hey er besta trefjauppsprettan.

KANÍNUKJARNFÓÐUR
Gæða kanínukjarnfóður á að gefa daglega í takmörkuðu magni. Þar sem kjarnfóður er kolvetnaríkt, trefjasnautt og kalkríkt getur frjáls aðgangur að því leitt til offitu, hjarta- og lifrarsjúkdóma, langvarandi niðurgangs og nýrnasjúkdóma. Athugið trefjainnihald og kaupið trefjaríkt kjarnfóður (18% trefjar eða meira), og lítið í einu. Geymið kjarnfóðrið í ísskáp eða á köldum og þurrum stað til að varna eyðileggingu. Gamalt og þrátt kjarnfóður getur leitt til þess að kanínan þín neitar að éta.

Eftirfarandi sýnir DAGLEGT MAGN kjarnfóðurs fyrir kanínur.          FYLLIÐ EKKI Á SKÁLINA fyrr en næsta dag þótt að kjarnfóðrið sé uppurið. OFFÓÐRUN MEÐ KJARNFÓÐRI OG “KANÍNUBLÖNDUM” ER AÐALÁSTÆÐAN FYRIR HEILSUFARSVANDAMÁLUM KANÍNA! Haldið kanínunum við góða heilsu með því að gefa hóflega.

Kanínur mega hafa frjálsan aðgang að kjarnfóðri til 8 mánaða aldurs, þar sem þær vaxa ennþá hratt. Eftir 8 mánaða aldur geta þær fengið eftirfarandi magn:
·        Kanína sem vegur 1-2 kg fær 1/8 dl daglegaimages.jpg
·        Kanína sem vegur 2,5-3,5 kg fær ¼ dl daglega
·        Kanína sem vegur 4-5 kg fær ½ dl daglega
·        Kanína sem vegur 5,5-7,5 kg fær ¾ dl daglega

Undir ákveðnum kringumstæðum getur verið að dýralæknirinn þinn mæli með að gefa ekkert kjarnfóður. Verið þó ekki óróleg – kanínan fær öll nauðsynleg næringarefni úr heyi og grænmeti. (Þetta er venjulega sú aðferð sem valin er  fyrir mjög feitar kanínur sem eiga að léttast á öruggan hátt).

KANÍNU/NAGDÝRABLÖNDUR
Svokallaðar nagdýrablöndur sem seldar eru í dýrabúðum, eru því miður ekki gott fóður fyrir kanínur. Margir halda að þessar blöndur séu kanínukjarnfóður en svo er ekki. Blöndurnar innihalda oftast lítið kjarnfóður en oft sólblómafræ, hnetur, kornfleks og hafra. Þessar fóðurtegundir eru fitu- og kolvetnaríkar og innihalda mjög lítið af trefjum. Þótt kanínur vilji frekar nagdýrablöndurnar á ekki að láta platast af því, kanínur vita jú ekki hvað er best fyrir þær. Mælt er með að forðast nagdýrablöndurnar sem daglegan kost. Ef að vill má gefa lítið af þeim við og við, en það á að vera í mjög litlu magni og bara sem góðbita/verðlaun.

kaninagulr.jpgGRÆNMETI
Grænmeti skal gefa daglega. Í náttúrunni éta kanínur fyrst og fremst seig trefjarík blöð, börk og annan illmeltanlegan gróður. Meltingarfæri þeirra virka best þegar þau hafa sem mest að gera við að brjóta niður sterkju. Ef að kanínan er ekki vön að éta grænmeti, byrjið þá varlega með grænblaða grænmeti og bætið við nýrri sort hvern 5-7 dag. Ef að nýtt grænmeti leiðir til niðurgangs á 24-48 tímum eftir át, skal taka það úr fæðunni. Ungar kanínur á einnig að venja smátt og smátt við nýjan mat.  Fóðrun með fersku trefjaríku grænmeti (og heyi) hjálpar til við að fyrirbyggja ójafnvægi í meltingarfærunum og uppfyllir stóran hluta af vökvaþörf kanínunnar. Þar að auki elskar kanínan það.
Grænmeti sem að gott er að nota og skipta á milli til tilbreytingar er t.d. gulrótakál, beitikál, fíflablöð og fíflablóm, kál, steinselja, smári, brokkoli (með blöðum), gulrætur, græn paprika, baunabelgir, blómkál, basilika, hindberjablöð, radísur, spínat. Reynið að gefa a.m.k. 3 mismunandi tegundir á dag. Að fóðra með einsleitu grænmeti (t.d. bara brokkoli, káli, blómkáli og spínati) getur leitt til efnaskiptasjúkdóma.

NAMMIBITAR
Lítið magn, ca 1 msk pr 2,5 kg kanínu, af eftirfarandi nammibitum má gefa við og við en helst ekki á hverjum degi. Jarðarber, papaya, ananas, epli, perur, melónur, hindber eða þurrt fullkornabrauð. Þessu má skipta út og gefa 1 tsk pr 2,5 kg kanínu af banana eða þurrkuðum ávöxtum.

FORÐIST
Mælt er með að forðast að gefa: salta eða sykurríka aukabita, hnetur, súkkulaði, morgunkornsflögur eða aðrar mjölríkar vörur, svo sem kökur og brauð (ekki einu sinni hrökkbrauð er nytsamlegt fyrir kanínur en má gefa sem nammibita). Þetta getur nefnilega valdið meltingarfæravandamálum og offitu.

miniloprabbit3weeksday25.JPGVATN
Vatn á alltaf að vera til staðar og skipta skal um daglega. Óhrein vatnsílát geta leitt til vaxtar á sjúkdómsvaldandi bakteríum. Vatn er hægt að gefa í annaðhvort vatnsflösku eða í þungri skál sem er fest í einum enda búrsins svo að hún velti ekki um. Gefið ekki lyf eða vítamín í vatnið ef það skyldi vera að kanínan drekki ekki ef að bragð eða litur breytist.

VÍTAMÍN
Ekki er nauðsynlegt að að gefa kanínum auka vítamín ef að þær fá kjarnfóður, hey og ferskt grænmeti að éta. Þvert á móti getur ofnotkun á vítamínum leitt til alvarlegra sjúkdóma.

SALT EÐA BÆTIEFNASTEINAR
Það er heldur ekki nauðsynlegt fyrir kanínur á góðu fæði. Það er kannski ágætt að eiga stein tilbúinn fyrir dýr sem að eru utanhúss og ræktunardýr. Bætiefnasteinar geta í sumum tilfellum verið óhentugir, því að sumar kanínur mynda auðveldlega steina í þvagblöðrunni ef að þær hafa aðgang að auka kalki.

NÆTURHÆGÐIR
Það kann að virðast undarlegt að telja þetta upp sem hluta af fóðrinu, en þessar sérstöku hægðir eru mikilvægur hluti af fæðu kanína. Á vissum tímum dags, venjulega á kvöldin, sleikir kanínan svæðið í kringum endaþarmsopið og jafnvel étur hluta hægðanna. Þessar botnlangaafurðir eru mýkri, grænni og lykta sterkar en hinar venjulegu hægðir. Kanínan veit þegar þessi tegund hægða myndast og étur þær beint frá endaþarminum. Þessar kúlur innihalda vítamín og næringarefni sem að kanínur þurfa til að halda góðri heilsu. Eftir að hafa étið þessar “vítamínkúlur” meltir kanínan þær aftur og tekur upp nauðsynleg næringarefni. Þessi ávani þykir fólki oft heldur ógeðfelldur en þetta er eðlilegt og mjög mikilvægt fyrir dýrið. Stundum geta kanínur skitið þessum “vítamínkúlum” með venjulegum hægðum í stað þess að éta þær. Þetta er ekki niðurgangur og ef að þetta hendir einungis stöku sinnum er þetta ekki sjúkdómatengt vandamál.
07/2007 © Anna Jóhannesdóttir