Almennt um kanínur

324800_mini_lop_bunny.jpgKanínan, Oryctolagus cuniculus, er upprunin frá villtum kanínum í Vestur Evrópu og Norður-Afríku. Hún er plöntuæta og oftast á beit í rökkrinu eða að næturlagi. Kanínur nota klærnar til að grafa sér holur til skjóls og hvíldar. Úti í náttúrunni sýna kanínur sjaldan árásargirni, heldur flýja þær sem fætur toga við hættumerki. Aftur á móti geta búrkanínur sýnt árásargirni þegar þeim er hótað eða þegar þær eru stressaðar. Lyktarskynið er mjög næmt.

Kanínur eru vinsæl gæludýr, sem verða hluti að fjölskyldunni. Þær eru greind, vinaleg og hljóðlát húsdýr og frekar auðvelt er að þjálfa þær í að gera þarfir sínar á ákveðnum stöðum. Meðalævilengd er 7-9 ár en vitað er um kanínur sem hafa náð 15 ára aldri. Kænur verða kynþroska við 3-9 mánaða aldur og kanar við 3-10 mánaða aldur. Meðgöngutíminn er í 29-35 daga (að meðaltali 31-32 dagar) og oftast eru 4-10 ungar í hverju goti. Ungarnir eru vandir frá við 4-6 vikna aldur en ekki á að skilja þá frá móðurinni fyrr en í fyrsta lagi við 6 vikna aldur. Mælt er með ófrjósemisaðgerðum á báðum kynjum, um leið og merki um kynþroska sjást, en það er oftast við 4-5 mánaða aldur.  Gelt dýr eru oftast nær rólegri og hændari að fólki og því betri gæludýr. Gelding á kananum þýðir að það er minni hætta á svæðamerkingu hjá honum og ófrjóar kænur þurfa ekki ganga í gengum óæskilegar meðgöngur og krabbamein í legi heyrir sögunni til.

07/2007 © Anna Jóhannesdóttir