Bólusetning katta á Íslandi

kattamynd.jpgBólusetningar flokkast undir hvetjandi ónæmisaðgerðir en þær eru gerðar í því skyni að veita vörn gegn ákveðnum smitsjúkdómum. Við bólusetningar eru notuð bóluefni en þau skiptast í tvo flokka, lifandi eða dauð.  Í lifandi bóluefni eru vírusar sem hafa verið veiklaðir en í dauðu bóluefni eru dauðir vírusar eða brot af þeim.  Notkun bóluefna er áhættulítil og bóluefni sem notað er fyrir ketti hér á landi inniheldur eingöngu óvirkjaðar veirur.

Við bólusetningu katta er gefið bóluefni undir húð en það hvetur ónæmiskerfið til framleiðslu sértækra mótefna sem verja köttinn gegn viðkomandi sjúkdómi. Á Ísland er bólusett fyrir eftirtöldum sjúkdómum:

 • Kattafár (Feline panleukopenie) - vírussjúkdómur sem var fyrir tíma bólusetninganna, ein helsta dánarorsök katta um allan heim.  Sjúkdómurinn er einkum hættulegur kettlingum og ungum dýrum en kettir á öllum aldri geta smitast.  Sjúkdómurinn veldur háum hita, slappleika, uppköstum, niðurgangi og lystarleysi og getur leitt dýrið til dauða á 3-5 dögum eftir að einkenna verður vart.  Hjá mörgum köttum verða veikindin langvarandi og valda því að kötturinn þrífst illa.  Kattafár smitast bæði beint milli katta eða berst milli katta gegnum umhverfið, en þar getur vírusinn lifað lengi.
 • Kattainflúensa (feline rhinotracheitis, feline calcivirus) - Kattainflúensa er samheiti yfir tvo mismunandi vírussjúkdóma, Kattaflensu (FVR) og Kattakvef (FCV), en þessir vírusar eru algengasta orsök öndunarfærasýkinga hjá köttum.  Sjúkdómurinn veldur oftast litlum einkennum, en getur verið mjög alvarlegur og jafnvel banvænn hjá kettlingum.  Einkennin eru hár hiti, slappleiki, hnerri og augnrennsli, bólgur kringum augun og jafnvel slef.  Stundum sjást sár í munni.  Smitaðir kettir geta borið vírusinn með sér þó án þess að sýna einkenni og gerir það baráttuna við sjúkdóminn erfiðari.
 • Chlamydia - Chlamydia er mjög smitandi sjúkdómur hjá köttum og orsakavaldurinn er baktería sem nefnist Chlamydia psittaci.  Einkennin eru hvarmabólga, byrjast oftast í öðru auganu og færir sig síðan yfir í hitt augað, hiti, nefrennsli, lystarleysi og þyngdartap.  Sjúkdómurinn er meðhöndlaður með fúkkalyfjum.  Þar sem Chlamydiu smit er sem betur fer ekki mjög algengt á Íslandi, er bóluefni gegn Chlamydiu nær eingöngu notað hjá kattaræktendum og þar sem smitálag er mjög mikið.

 Hvenær á að bólusetja ketti?

kat.jpgVið fæðingu eru kettlingar verndaðir gegn mörgum smitsjúkdómum með mótefnum, sem þeir fá í gegnum broddmjólk móðurinnar fyrstu klukkutímana eftir fæðingu. Þeir eru þó einungis verndaðir gegn þeim sjúkdómum sem móðirin sjálf er ónæm fyrir, því er mikilvægt að móðirin sé bólusett reglulega.  Kettlinga undir 8 vikna aldri hefur því litla þýðingu að bólusetja, mótefnin gera bóluefnið óvirkt.  Mótefnin frá móðurinni lækka smám saman í blóði kettlingsins, uns eigin mótefnamyndun kettlingsins tekur alfarið yfir.  Hvenær það gerist er breytilegt eftir einstaklingum og aðstæðum, en við 8-12 vikna aldur hafa mótefnin lækkað það mikið að kominn er tími fyrir fyrstu bólusetningu. Til að örva mótefnamyndun kettlingsins eins mikið og hægt er, skal endurtaka bólusetninguna 3 - 4 vikum síðar.  Þá telst kötturinn grunnbólusettur.  Fram að þeim tíma er kötturinn raunverulega ekki verndaður gegn ofantöldum sjúkdómum og ætti að forða honum frá samneyti við utanaðkomandi ketti. Kettlingafullar kisur á ekki að bólusetja og ekki er heldur mælt með að bólusetja kisu meðan kettlingarnir eru á spena.

Bólusetningaráætlun

Til að vernda kettlinginn eins og hægt er gegn ofantöldum smitsjúkdómum, má fylgja eftirfarandi áætlun:

 1.   Fyrsta bólusetning við 8-12 vikna aldur.
 2.   Önnur bólusetning við 12-16 vikna aldur.
 3.   Árleg endurbólusetning.

Ef kettlingurinn er bólusettur fyrir 8 vikna aldur, skyldi endurtaka bólusetningarnar við 12 og 16 vikna aldur.  Fullorðna ketti, sem áður hafa verið bólusettir, skal alla jafna bólusetja árlega.

Hversu lengi endist bólusetning?

45catvaccinationashx.jpgMótefnaframleiðsla er mjög mismunandi hjá einstaklingum. Dæmi um þetta þekkja kattaeigendur sem hafa flutt dýrin sín með til Svíþjóðar, Noregs eða Stóra-Bretlands.  Þá þarf að mæla mótefni gegn hundaæði í blóði áður en flytja má köttinn.  Sumir kettir hafa, þrátt fyrir að öllum bólusetningarreglum sé framfylgt, ekki náð að mynda nægilegt magn mótefnis í blóði til að fá innflutningsleyfi.  Að auki er mótefnamyndun mismunandi eftir því um hvaða sjúkdóm er að ræða, t.d. endist bólusetning gegn Kattakvefi, Kattaflensu og Chlamydiu einungis í eitt ár.  Mikilvægt er að hafa í huga að þótt að kötturinn sé bólusettur t.d. gegn Chlamydiu, getur hann alltaf smitast.  Það getur gerst t.d. ef smitálagið er mjög mikið eða ef kötturinn er ónæmisveiklaður vegna annars sjúkdóms, ormasmits eða stresss.  Veikindatíminn er þó styttri og einkennin vægari hjá bólusettum einstaklingum.

Er einhver áhætta við bólusetningar?

Almennt séð er mjög lítil áhætta við bólusetningu katta.  Margir kettir eru bólusettir á ári hverju og mjög fáir fá alvarlegar aukaverkanir.  Mikilvægt er að greina á milli alvarlegra aukaverkana og vægra aukaverkana.

Vægar aukaverkanir eru þreyta, kannski lystarleysi sama dag og bólusett er.  Stundum fá kettirnir smá hita, sem gengur yfir á 2 dögum.  Einnig geta sést smá viðbrögð í kringum stungustaðinn, kláði og smá bólga sem hverfur oftast á u.þ.b. hálfum mánuði.  Alvarlegar aukaverkanir eru þegar kötturinn sýnir viðbrögð strax eftir bólusetningu, oftast líða innan 10 mínútur frá bólusetningu og þar til í ljós koma ofnæmisviðbrögð.  Þá er mikilvægt að koma strax aftur til dýralæknisins svo hægt sé að meðhöndla ofnæmisviðbrögðin.

Hafið samband við dýralækninn ef…….acat1s.gif

 • kettlingur sem á að fara í sína fyrstu bólusetningu er nýkominn á heimilið.  Dýralæknirinn framkvæmir einnig heilsufarsskoðun og ormahreinsun um leið og bólusett er.
 • kötturinn þarf að fara í árlega heilsufarsskoðun og fá árlega bólusetningu í leiðinni.
 • þú hefur áhyggjur af því hvort þurfi að bólusetja köttinn gegn Chlamydiu
 • þú ert á leiðinni til Svíþjóðar, Noregs eða Stóra-Bretlands, því köttinn þarf að bólusetja gegn hundaæði ca 6-7 mánuðum áður en haldið er af stað.
 • þú ert á leiðinni td. til Þýskalands, Hollands, Belgíu, Frakklands, Spánar eða Ítalíu, því að köttinn þarf að bólusetja við hundaæði minnst 30 dögum áður en haldið er af stað.

09/2007 © Anna Jóhannesdóttir